Alicante

Áfangastaður
Alicante (ALC)
Bóka ferð

Sól og sæla á
Alicante

Ferðatímabil 11. apríl - 25. október 2023

Borgina Alicante þarf vart að kynna til leiks fyrir Íslendingum enda hafa ófáir landar sótt staðinn heim og átt þar ógleymanlegar stundir. Sól, pálmatré, blár sjór og hvítar strendur bíða þín á suðurströnd Spánar og frá Alicante er stutt að fara til annarra vinsælla áfangastaða á borð við Benidorm, Valencia, Torrevieja, Altea og Calpe.

Alicante tilheyrir strandlengjunni Costa Blanca, eða „Hvítu Strandlengjunni”. Þar er urmull af fallegum stöðum sem vert er að heimækja, til dæmis Postiguet-ströndin, El Campello og Albufereta-ströndin. Einnig er tilvalið að heimsækja eyjuna Tabarca sem er yfirlýst verndarsvæði fyrir sjávardýr og frábær áfangastaður fyrir þá sem vilja snorkla og njóta sín á ströndinni.

Afþreying

Alicante og svæðið í kring er stútfullt af skemmtilegri afþreyingu fyrir alla aldurshópa. Þar er fullt af frábærum golfvöllum og hjólaleiðum. Við ströndina er hægt að finna fjölbreytta afþreyingu, allt frá því að busla á vindsæng yfir í brimretti, bátsferðir, sæketti og köfun. Stutt er í Benidorm þar sem hægt er að skella sér í skemmtigarðana Aqualandia og Terra Mítica. Á Alicante og Benidorm er fjörugt næturlíf og mikið úrval af börum og veitingastöðum.

En Alicante bíður upp á fleira en bara sól og slökun. Listunnendur munu hafa gaman að því að heimsækja söfnin Museo Arquelogico de Alicante (MARQ) og Museu de Belles Arts Gravina.

Einnig er tilvalið að skella sér í gönguferð um gamla bæinn, Barrio de la Santa Cruz, sem situr við rætur Benacantil fjallsins. Á tindi fjallsins trónir Santa Bàrbara kastalinn sem hefur ríka sögu og samanstendur af þremur hverfum sem voru byggð á mismunandi tímabilum í sögu Spánar. Gamli bærinn sjálfur gefur kastalanum ekkert eftir og státar af urmul veitingastaða sem margir sérhæfa sig í sjávarréttum og tapas. Að sjálfsögðu bíður gamli bærinn einnig upp á iðandi næturlíf, þar sem hægt er að njóta drykkja og lifandi tónlistar innan um upplýstar götur umvafinn byggingalist Barokk tímabilsins.

Hátíðir og viðburðir

Á Spáni er alltaf nóg um að vera þegar kemur að hvers konar viðburðum og hátíðum. Stærsta og mikilvægasta hátíðin í Alicante er Jónsmessuhátíðin „Las Hogueras de San Juan“. Hátiðarhöldin standa yfir á tímabilinu 20.-29. júní ár hvert og nær hápunkti 24. júní með brennum, lifandi tónlist, sýningum og flugeldum.

Einnig er vert að minnast á Cruces de Mayo götuhátíðina sem haldin er fyrstu dagana í maí í Santa Cruz. Þá eru reistir gríðarstórir blómakrossar á torgum bæjarins og iðulega spretta upp tímabundnir barir og tapasstaðir í kjölfarið ásamt tilheyrandi Flamenco dansi og fjöri.