Kaupmannahöfn

Áfangastaður
Copenhagen Airport (CPH)
Bóka ferð

Kóngsins Köben

Flogið tvisvar í viku, á sunnudögum og fimmtudögum.

Köben þekkja flestir Íslendingar. Þessi fagra höfuðborg Danmerkur er ein vinsælasta ferðamannaborg Norðurlanda og ekki að ástæðulausu. Tilvalið er að fara í göngutúr frá Aðallestarstöðinni (d. Hovedbanegård) þar sem Strikið er gengið endilangt. Enda svo hjá Nýhöfn (d. Nyhavn) og setjast niður á góðum veitingastað.

Hvað er betra en að spóka sig um á Strøget, kannske versla smá, finna sér svo góðan stað til þess fá sér smørrebrød og einn kaldann? Det ville være meget næs!

Ef meiningin er að fljúga lengra, þá býður Kastrup-flugvöllur upp á afar fjölbreytta tengikosti til meira en 200 áfangastaða víðsvegar um heminn, en á heimasíðu Kastrup má sjá betri upplýsingar.

Veitingastaðir

Fáar borgir bjóða upp á jafn mikið af góðum mat og Kaupmannahöfn. Í dag eru a.m.k. 16 Michelin veitingastaðir í borginni, ásamt fjölda annarra veitingastaða, sem hafa fengið verðskuldaða athygli.

Íslandsvinurinn Ida Davidsen á og rekur líklega frægasta smørrebrød-veitingastaðinn í Kaupmannahöfn. Ida, sem er fjórðu kynslóðar smørrebrøds-dama, útbýr smørrebrød eftir uppskriftum sem hafa verið í fjölskyldu hennar í yfir 100 ár.

Ekki má gleyma Noma og Reffen. Á Reffen er hægt að finna ódýran en góðan mat í nokkurs konar „úti-mathöll”. Þú ferð og kaupir þér eitthvað á einum bás meðan ég kaupi mér eitthvað annað og úr verður mjög næs máltíð!

Menning

Það er ekki hægt að heimsækja Kaupmannahöfn án þess að skoða Litlu hafmeyjuna. Styttan var gefin borginni árið 1913 og er því yfir 100 ára gömul. Höfundur verksins sótti innblástur í sögu H.C. Andersen.

Ef maður vill upplifa hvernig aðalsættin bjó í Kaupmannahöfn fyrir hundruðum ára, verður maður að heimsækja Rosenborg slot – sem er í raun ekki slot heldur kastali. Rosenborg slot er í miðbæ Kaupmannahafnar, við hliðina á Kongens have, sem er æðislegur staður til að slaka á og hlusta á næs tónlist.

Kongens have er almenningsgarður í dag en í gamla daga tilheyrði hann Rosenborg slot, sem sagt garður kóngsins eins og nafnið bendir til. Í dag er búið að breyta Rosenborg slot í safn. Þar getur maður séð danssalinn, svefnherbergin, baðherbergi konungs og margt fleira. Allt er þetta mjög íburðarmikið og fallegt. Í kjallaranum er einnig sýning á konunglegum skartgripum.

Ekki má gleyma öðrum söfnum, eins og Statens Museum for Kunst, Nationalmuseum eða Krigsmuseum. Það er eitthvað fyrir alla!

Hvernig væri svo að skella sér á tónleika í Köben? Hverja helgi er hægt að finna fjölda tónleika um alla borg og líklega getur hver og einn fundið eitthvað að sínu skapi.

Afþreying

Hafnarstrætóinn, sem er floti báta sem sigla um höfnina, hefur í gegnum tíðina reynst hin besta skemmtun fyrir fólk á öllum aldri, en umfram allt mjög ódýr. Það er jafnvel þekkt að eiginkonur skilji mennina sína eftir um borð, meðan þær fara á Strikið og leysi nokkur af vandamálum heimilisins á næs hátt.

Bakken er einn elsti skemmtigarður í heimi. Garðurinn býður upp á skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Í garðinum eru alls 32 mismunandi tæki, en þó að garðurinn sé frá árinu 1583, er elsta tækið í garðinum aðeins 82 ára gamall viðarrússíbani.

Hvernig væri að skella sér í hjólatúr um Köben? Á hverju horni í miðbænum er hægt að leigja hjól, með rafmagni eða án. Í Kaupmannahöfn eru æðislegar hjólaleiðir, hvort sem er innan bæjarins eða fyrir utan hann.

Síðast en ekki síst má ekki gleyma að heimsækja Kristjaníu þegar maður heimsækir Köben, hvort sem maður er með börn eða ekki. Þar er lítil strönd við vatnið sem börnum þykir gaman að leika.

Vissuð þið að Danir eru ein hamingjusamasta þjóð í heimi?