Düsseldorf

Áfangastaður
Düsseldorf (DUS)
Bóka ferð

Düsseldorf
Tenging við umheiminn

Hefjum flug 6. maí 2023

Düsseldorf er kjörinn áfangastaður fyrir þá sem vilja skella sér í menningarferð til meginlands Evrópu. Borgin er þekkt sem tískuborg Þýskalands og fyrir iðandi lista- og tónlistalíf. Að auki á borgin sér ríka sögu, býður upp á mikið úrval afþreyingar og er tilvalin sem tenging við aðra spennandi áfangastaði um allan heim.

Gátt til umheimsins

Düsseldorf stendur í hjarta Rín-Ruhr stórborgarsvæðisins í Norður Vestfalíu, lang fjölmennasta sambandslandi Þýskalands. Innan seilingar eru stórborgir á borð við Köln, Dortmund og Essen og auðvelt er að ferðast með lest til hvaða annarra áfangastaða innan Þýskalands. Flugvöllurinn í Düsseldorf er stór og nútímalegur og sá fjórði fjölfarnasti í þýskalandi. Þar er að finna frábærar tengingar við meira en hundrað áfangastaði um allan heim. Flugvöllurinn er aðeins í 20 mínútna fjarlægð frá miðborg Düsseldorf og lestarferð inn í miðborgina tekur einungis 12 mínútur. Lestarstöðin á flugvellinum bíður einnig upp á fjölda tenginga við evrópskar borgir utan Þýskalands, sem dæmi er hægt að ferðast með lest til Amsterdam á þremur tímum og til Brussel á tveimur og hálfum.

Menning

Meðal Þjóðverja er Düsseldorf þekkt fyrir skrautlegt og skemmtilegt næturlíf og það eru meðmæli því óvíða er næturlífið fjölbreyttara en í Þýskalandi.

Gamli bærinn (Altstadt) iðar af lífi á daginn og kvöldin. Hann er stundum kallaður lengsti bar í heimi vegna þess að þar eru um 260 barir og pöbbar, en það eru fleiri barir á fermetra en í nokkurri annarri miðaldaborg í Evrópu.

Í Düsseldorf er rík bruggmenning sem á rætur að rekja allt til tíma rómarveldis. Brugghúsin brugga hinn fræga Altbier eftir gamalli hefð og hægt er að fá hann á krana um alla borgina. En það er ekki einungis bjórinn sem heillar í Gamla bænum heldur er þar líka fjöldinn allur af veitingastöðum og kaffihúsum.

Düsseldorf er þekkt fyrir iðandi tónlistarsenu á sviði raftónlistar og pönks og státar borgin m.a. af hljómsveitunum Kraftwerk og Neu.

Afþreying

Líkt og í öðrum borgum á Rínarsvæðinu er Karnival hátíðin haldin í byrjun nóvember ár hvert. Þá þyrpast hundruð þúsunda grímuklæddra gesta á götur bæjarins fyrir vikulöng hátíðarhöld sem enda á hinni víðfrægu Rosenmontagsumzug skrúðgöngu.

Hvernig hljómar verslunarferð á Königsallee, fáguðustu verslunargötu Þýskalands? Düsseldorf er einn helsti áfangastaður Evrópu fyrir tískuunnendur þar sem fjöldinn allur af tískusýningum eru haldnar ár hvert með fjölda verslana við allra hæfi.

Borgin hýsir mikið af flottum söfnum og sýningum. Áhugafólk um byggingalist þarf ekki að leita langt því í Gamla bænum er að finna glæsilegar 13. aldar byggingar eins og St. Lambertus Kirkjuna og Kastala turninn Schlossturm. Fyrir þá sem hafa sérstakt dálæti af Barokk arkítektur þá er Benrath höllin (Schloss Benrath) ómissandi stopp og í borginni er einnig að finna stærstu stafrænu klukku veraldar, í formi ljósaskúlptúrs utan á Rheinturm, stærsta turni borgarinnar.