Börn um borð
Börn um borð
Börn fá 25% afslátt af fullorðins fargjaldi fyrir skatta og ungabörn fá 90% afslátt.
Öll börn þurfa gilt vegabréf til að ferðast með Niceair.
Börn ein á ferð
Börn á aldrinum 5 til 11 ára (fram að 12 ára afmælisdegi), sem ekki er fylgt af farþega 15 ára eða eldri, teljast vera börn sem eru ein á ferð í flugi Niceair.
Börn sem eru ein á ferð geta ferðast með ákveðinni hjálp frá foreldrum og Niceair. Til að óska eftir þessari þjónustu þarf að bóka hér áður en flugmiði er keyptur. Niceair hefur svo samband og klárar bókunina. Niceair biður farþega um að bóka slíka þjónustu að lágmarki tveimur dögum fyrir brottför. Einnig er hægt að bóka fylgd fyrir börn 12-14 ára (fram að 15 ára afmælisdegi) og gilda sömu gjöld og reglur og fyrir 5 til 11 ára börn.
Við leggjum mikið upp úr því að veita hverju barni þá athygli sem það þarf. Þess vegna getum við að hámarki tekið á móti fjórum börnum sem eru ein á ferð í hverju flugi.
Þegar bókun er gerð þarf að tilgreina vandlega upplýsingar um fullorðna aðstandendur sem koma til með að skutla börnum á brottfararstað og sækja þau á áfangastað. Gott er því að hafa allt til reiðu þegar bókun er gerð.
Fyrir brottför þarf að fylla út þrjú eintök af þessu eyðublaði og koma með útprentuð á flugvöllinn.
Ferð barnsins
Fullorðinn aðstandandi skutlar barni á flugvöll, hjálpar því við innritun og fylgir því alla leið út að hliði. Þjónustuaðilar Niceair aðstoða við þetta en við brottfararhlið taka áhafnarmeðlimir Niceair við umsjón þar til komið er á áfangastað. Liggja þarf fyrir hver kemur til með að sækja barnið á áfangastað og hvernig hægt sé að ná í þann aðstandanda.
Aðstandandi þarf að hinkra í flugstöðinni þar til flugvélin er komin í loftið.
Meðan á flugi stendur sitja börn sem eru ein á ferð saman aftast í flugvélinni ásamt áhafnarmeðlimi Niceair sem lítur til með þeim.
Eftir lendingu skal aðstandandi vera tilbúinn til móttöku í móttökusal. Áður en aðstandandi tekur á móti barni biður þjónustuaðili Niceair um gild persónuskilríki með mynd ásamt upplýsingum um hvernig hægt sé að hafa samband við hann.
Ungbörn um borð
Börn undir tveggja ára aldri (24 mánaða) teljast samkvæmt skilmálum Niceair vera ungbörn.
Niceair hefur um borð sérstök sætisbelti fyrir ungbörn sem áhafnarmeðlimir okkar aðstoða farþega við að nota.
Fyrir ungbörn þarf að kaupa flugmiða. Ungbarn verður að sitja í fangi foreldris við flugtak og lendingu en hægt er að kaupa sæti fyrir barnið að auki. Sökum öryggisaðstæðna geta farþegar sem ferðast með ungbarn ekki setið í röð við neyðarútgang.
Frekari upplýsingar um að ferðast með börn í flugvél má finna hér.
Barnshafandi konur
Til að tryggja öruggt flug er konum, sem eru á síðasta mánuði meðgöngu því miður ekki heimilt að fljúga með Niceair.
Bílstólar barna
Barnabílstóla sem fylgja Evrópustöðlum er leyfilegt að taka um borð sé ferðast með ungbarn, ef sæti hefur verið bókað fyrirfram. Nauðsynlegt er einnig að tryggja að bílstóllinn sé hannaður til notkunar með tveggja punkta belti.
Upplýsingar um stóla má finna hér.