Hreyfihömlun

Hér getur þú lesið um réttindi þín sem hreyfihamlaður einstaklingur og hvað Niceair og samstarfsaðilar geta aðstoðað með á ferðalagi þínu.

Niceair er ánægja að veita séraðstoð vegna hreyfihömlunar. Slík þjónusta er veitt í samræmi við IATA flokkunarkerfið:

 • WCHR (hjólastóll að flugvél) – Farþegi kemst sjálfur upp og niður tröppur flugvélar og kemst sjálfur um farþegarými flugvélar, en óskar eftir hjólastól til að komast um flugstöð og út að vél.
 • WCHS (hjólastóll að flugvél ásamt aðstoð við þrep) – Farþegi getur komið sjálfum sér í sæti inni í flugvél en þarf að nota hjólastól til að komast um flugstöð og út að vél. Farþegi getur ekki farið upp eða niður tröppur við flugvél án aðstoðar eða þjónustu.
 • WCHC (hjólastóll að sæti) – Farþegi þarfnast aðstoðar við að komast alla leið; um flugstöð, flughlað, upp tröppur vélar og í sætið sitt.

Reglur um rafhlöður hjólastóla

Rafknúna hjólastóla má flytja í farangursrými flugvélar. Flestir eru þeir með litíum- eða þurr-rafhlöður en gæta þarf að eftirfarandi:

 • Litíum-rafhlöður mega ekki vera stærri en 300 vattstunda (Wh); og
 • Ef stóll hefur tvær rafhlöður má hvor um sig ekki vera stærri en 160 vattstunda (Wh)
 • Rafknúna hjólastóla sem nota vökvarafhlöður þarf að flytja með fraktflutningum, sem er ekki í boði hjá Niceair.

Stærðarviðmið hjólastóla

Hjólastóla er hægt að flytja í farangursrými en tryggja þarf að hægt sé að koma þeim inn um farangursdyr.

Farangursdyr flugvéla Niceair eru 120 cm á hæð (48”) og 180 cm á breidd (71”)

Starfsfólk okkar eða þjónustuaðilar geta aðstoðað við minniháttar aðgerðir til að brjóta stólinn saman í rétta stærð sé það mögulegt.

Á flugvellinum

Farþegar eru beðnir um að mæta á flugvöllinn að minnsta kosti einni og hálfri klukkustund fyrir flug frá Akureyri en tveimur klukkustundum fyrir flug frá öðrum flugvöllum til að gæta að því að hægt sé að veita sem besta þjónustu.

Innritun

Farþegar sem ferðast í eigin hjólastól

Mælst er til þess að farþegar noti hjólastólana sem í boði eru á flugvellinum til að auðvelda fyrir innritun farangurs. Þurfi farþegi að nota eigin hjólastól er best að hann innriti sig á flugvellinum og tryggi að stólinn sé rétt merktur. Hægt er að nota hjólastólinn út að flugvél, hjólastólnum er þá komið fyrir um borð í farangursrýminu.

Farþegar sem ferðast í hjólastól flugvallarins

Þurfi farþegi á aðstoð að halda vegna hreyfihömlunar en ferðast ekki með eigin hjólastól, þarf að láta vita við innritun, að minnsta kosti einni og hálfri klukkustund fyrir flug frá Akureyri eða tveimur klukkustundum fyrir flug frá öðrum flugvöllum.

Fyrir flug

Við biðjum farþega sem ferðast í hjólastól um að vera komna að brottfararhliði tímanlega fyrir brottför, til að tryggja að þeir geti farið fyrstir um borð. Þegar um borð er komið útskýra áhafnarmeðlimir fyrirkomulag flugsins.

Innan Evrópusambandsins er það á ábyrgð flugvallarins að veita nauðsynlega aðstoð á flugvallarsvæðinu. Þurfi farþegi frekari aðstoð eða upplýsingar er einnig hægt að kynna sér heimasíðu hvers flugvallar fyrir sig til að athuga með sérþjónustu.

Á meðan á flugi stendur

Áhafnarmeðlimir geta aðstoðað farþega með:

 • Að ganga um borð og að fara frá borði;
 • Að ferðast um farþegarýmið;
 • Að komast til og frá salerni;
 • Að komast um vélina í hjólastól;
 • Að ganga frá handfarangri; og
 • Að opna matarumbúðir

Flugvélar okkar eru búnar hjólastólum sem hægt er að nota fyrir ferðir til og frá salerni. Áhafnarmeðlimir gera hjólastólinn tilbúinn og koma með hann til farþegans en geta ekki hjálpað farþegum í og úr stólnum. Farþegar þurfa að geta sest og staðið sjálfir upp úr stólunum eða að notast við aðstoðarmann sinn.

Eftir lendingu

Þurfi farþegi aðstoð við að komast úr vélinni verður hún veitt eftir að aðrir farþegar eru farnir frá borði, til þess að meiri tími og betra pláss gefist til að aðstoða farþega. Það tekur aðra farþega að meðaltali um 15 mínútur að ganga frá borði eftir að hurðar hafa verið opnaðar.